Bloggari Símans

Blogg Smans Á mánudaginn fór Blogg Símans í loftið á blogg.siminn.is

Hugmyndin er að byggja upp fróðlegt og lifandi blogg um tölvur, tækni og fjarskipti. Efnistökin verða víð: umfjöllun um nýjar græjur, sniðugan hugbúnað, skemmtilegar vefsíður, tölvuleiki, framtíð, nútíð og fortíð Internetsins og svo framvegis.

Auðvitað verður líka eitthvað fjallað um Símann og lausnirnar okkar, en þetta er upplýsingamiðill – ekki auglýsingamiðill. Þeir sem skrifa á bloggið birta þar sínar eigin skoðanir – og segja þar af leiðandi náttúrulega það sem þeim finnst. Ef bloggið væri hugsað sem endurvinnsla á fréttatilkynningum og auglýsingum myndi enginn lesa það – og þar með væri verkefnið fallið um sjálft sig.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskir bloggarar munu halda okkur við efnið í þeim málum 😉

Umsjónarmaður síðunnar er snillingurinn Davíð Halldór Lúðvíksson, en öllum starfsmönnum Símans er boðið að gerast “gestabloggarar” og koma að því sem þeim liggur á hjarta. Við eigum mikið af ákaflega færu tækni- og lausnafólki sem vonandi tekst að virkja, þannig að við hin njótum öll góðs af.

Þetta er tilraunaverkefni sem ég er stoltur af að hafa komið af stað og er ekki í nokkrum vafa um að þetta er sú leið sem fyrirtæki þurfa og munu tileinka sér í auknum mæli til að eiga í samskiptum við viðskiptavini sína á miklu meiri jafningjagrunni en hingað til hefur tíðkast. Ég er því sannfærður um að Blogg Símans er komið til að vera.

Á sama tíma opnar svona nálgun auðvitað á gagnrýni og opna umræðu, en fyrirtækin eru þá orðin þátttakendur í henni. Þau geta leiðrétt misskilning þegar við á, leiðbeint viðskiptavinum í réttan farveg með erindi sín og – að sjálfsögðu – fengið að heyra það þegar þau standa sig ekki. Þar eru þá tækifæri til að bæta sig.

Ég hlakka til að sjá hvernig þetta þróast. Endilega verið dugleg að koma með ábendingar um efnistök, framsetningu og útfærslu. Þetta er allt í mótun og þið getið hjálpað okkur í því.

Blogg Símans

One comment

  1. Frábært framtak.

    Þetta er eitthvað sem önnur fyrirtæki mættu taka sér til fyrirmyndar.

    Hlakka til að kíkja inn á það blogg – reglulega og sjá hvað er að gerast.

    Stígur

Leave a comment